Frumkvöðlafyrirtækið Meira frá Verzlunarskóla Íslands vann Citi Client Focus verðlaunin í Brussel, sem veitt eru á vegum Junior Achievement (JA) Europe.
Yfir 200 nemendur frá 35 löndum tóku þátt í keppni um fyrirtæki ársins 2017.
Citi Client Focus verðlaunin, sem Meira hlaut, eru veitt því fyrirtæki sem þykir skara framúr er varðar þarfagreiningu viðskiptavina sinna ásamt því að reyna að meta hverjar framtíðaþarfir þeirra koma til með að verða.
Meira var stofnað í janúar á þessu ári í verkefni á vegum JA Iceland – Ungir frumkvöðlar. Í apríl var Meira svo valið fyrirtæki ársins í keppninni á Íslandi, en fyrirtækið vann einnig til verðlauna fyrir mestu nýsköpunina.
Meira er að þróa sparnaðarapp í farsíma fyrir ungt fólk og byggir appið á því að notandinn setji sér markmið og fylgist svo með hvernig honum gengur að ná markmiðinu á sýnilegan og skilvirkan hátt.